þriðjudagur, júní 12, 2007

Að gefnu tilefni !!!

Undanfarið, þegar ég hef verið að segja fólki frá fyrirætlan minni, þ.e. að fara í hjáveituaðgerð á maga, hafa allir óskað mér til hamingju með þessa ákvörðun.

Þó hefur borið á því að sumir virðast óttast að ég breytist eitthvað með minnkandi umfangi.

Ég vona að ég geti slegið á ótta ykkar hér og nú þegar ég segi að ég sé engar líkur á því.

Nú, þegar ég er loksins orðin nokkuð sátt við þessa persónu, Önnu Siggu, þá væri það tóm vitleysa að fara að breyta henni.

Nema náttúrulega til batnaðar, eins og ég hef alltaf verið að reyna.

Ergo!

Hafið engar áhyggjur!

Ég mun áfram vera eins óvægin við að faðma ykkur og kyssa við hvert tækifæri og ég mun halda áfram að reyna að vera fyndin (hmmm!) og að sjálfsögðu mun ég halda áfram að syngja eins lengi og ég get !!!!!

En núna, sól, sól, skín á mig !!!!!

Meira seinna :-)

mánudagur, júní 11, 2007

Nýtt líf

Nú verður tekið upp nýtt tímatal!

"Gamla lífið" og "nýja lífið".

(Þ.e. fyrir aðgerð og eftir aðgerð.)

Nú er hafinn fimmti dagurinn í nýja lífinu.

Aðgerðin var gerð á miðvikudaginn var og gekk að óskum.

Ég fór heim tveimur dögum seinna.

Nú má ég bara drekka.

En það er ekki svo slæmt, ég má t.d. drekka hafraseyði, ávaxtasafa (án viðbætts sykurs), létt- alls konar, þ.e. jógúrt, skyr, mjólk, ab- alls konar og síaðar súpur.

Þetta verður uppistaðan í fæðu minni fyrstu þrjár vikurnar.

Þetta er allt saman alveg ljómandi matur.

En svo tekur "mauk" tíminn við, í ca. tvær vikur.

Eftir það má ég fara að borða venjulegan mat, en bara smátt og smátt.

Aðalmálið er að vera lengi að borða.

Nú þegar hef ég misst tvö kíló síðan á laugardaginn.

Þetta er allt doltið skrítið, það er eins og maður verði að læra að þekkja skilaboð frá maganum og því svæði alveg upp á nýtt.

Er ég svöng?

Eru þetta vindverkir?

Er þetta loftið sem var blásið inn í magann í aðgerðinni?

Er þetta ímyndun?

Er þetta kannski bara gömul minning?

Alla vega er þetta doltið skrítið.

En, allt gott!!!!

Ég á allt lífið framundan í ennþá hraustari líkama!!!

En nú ætla ég út í sólina, því sumarið er komið og er að kalla á mig :-)

Meira seinna :-)

mánudagur, júní 04, 2007

Biðin senn á enda :-)

Allt tekur enda!

Meira að segja þessi ótrúlega langi biðtími!

Jafnvel þótt hann hafi óvænt verið lengdur um tvo daga til viðbótar!

Þannig er mál með vexti að á fimmtudagsmorguninn var hafði ég verið boðuð á göngudeild Landspítalans (við Hringbraut) kl. 8.30 í rannsókn.

Þið sem þekkið mig vitið að það er löngu fyrir minn fótaferðatíma!

Ég var mætt sundvíslega (aldrei þessu vant!) og þar hitti ég margt gott og skemmtilegt fólk, s.s. hjúkrunarfræðing, svæfingalækni, sjúkraþjálfara, næringarfræðing, skurðlækni og svo hann Kára Allansson, sem er með mér í kórstjórn. Hann var þarna að vinna sinn þriðja vinnudag á þessari mætu stofnun.

Svo var tekið úr mér blóð.

Tvisvar sinnum.

Og eftir það og allt spjallið sem ég átti við þetta góða fólk, var ég orðin ansi upptendruð og full tilhlökkunar að takast á við þetta nýja verkefni, þetta nýja líf!

En, viti menn!

Morguninn eftir, þegar ég var að bíða eftir að fá að setjast í stólinn hjá henni Kristínu tannlækni, hringdi síminn.

Það var hún Gunnjóna (sú sem raðar fólki á aðgerðalistann)!

Hún sagði mér, í stuttu máli, að aðgerðinni minni væri frestað um tvo daga, fram á miðvikudag, það þyrfti nefnilega að fækka aðgerðum á mánudaginn um eina.

Af hverju ég?

Ég hefði ekki trúað því sjálf fyrirfram en við þessi tíðindi var eins og fótunum væri kippt undan mér.

Ekki það að ég vissi auðvitað að þetta breytti ekki öllu í mínu lífi, en þetta var í annað skiptið sem aðgerðinni minni var frestað!

Maður er nú doltið skrítinn!

Ég varð svo leið að ég fór næstum því að gráta og missti einhvern vegin allan damp!

Mér varð allt í einu alveg sama um allt!

Allur sá undirbúningur sem ég var búin að leggja í þetta verkefni hvarf út í veður og vind á einu augabragði!

Mig langaði bara að fara heim og leggjast undir sæng og aldrei koma undan henni, eins og í gamla daga!

!!!!!

En ég er nú nokkurn vegin búin að jafna mig núna, held bara áfram að bíða.

Vonandi samt ekki lengur en fram á miðvikudag!!!

Meira seinna :-)