Allt tekur enda!
Meira að segja þessi ótrúlega langi biðtími!
Jafnvel þótt hann hafi óvænt verið lengdur um tvo daga til viðbótar!
Þannig er mál með vexti að á fimmtudagsmorguninn var hafði ég verið boðuð á göngudeild Landspítalans (við Hringbraut) kl. 8.30 í rannsókn.
Þið sem þekkið mig vitið að það er löngu fyrir minn fótaferðatíma!
Ég var mætt sundvíslega (aldrei þessu vant!) og þar hitti ég margt gott og skemmtilegt fólk, s.s. hjúkrunarfræðing, svæfingalækni, sjúkraþjálfara, næringarfræðing, skurðlækni og svo hann Kára Allansson, sem er með mér í kórstjórn. Hann var þarna að vinna sinn þriðja vinnudag á þessari mætu stofnun.
Svo var tekið úr mér blóð.
Tvisvar sinnum.
Og eftir það og allt spjallið sem ég átti við þetta góða fólk, var ég orðin ansi upptendruð og full tilhlökkunar að takast á við þetta nýja verkefni, þetta nýja líf!
En, viti menn!
Morguninn eftir, þegar ég var að bíða eftir að fá að setjast í stólinn hjá henni Kristínu tannlækni, hringdi síminn.
Það var hún Gunnjóna (sú sem raðar fólki á aðgerðalistann)!
Hún sagði mér, í stuttu máli, að aðgerðinni minni væri frestað um tvo daga, fram á miðvikudag, það þyrfti nefnilega að fækka aðgerðum á mánudaginn um eina.
Af hverju ég?
Ég hefði ekki trúað því sjálf fyrirfram en við þessi tíðindi var eins og fótunum væri kippt undan mér.
Ekki það að ég vissi auðvitað að þetta breytti ekki öllu í mínu lífi, en þetta var í annað skiptið sem aðgerðinni minni var frestað!
Maður er nú doltið skrítinn!
Ég varð svo leið að ég fór næstum því að gráta og missti einhvern vegin allan damp!
Mér varð allt í einu alveg sama um allt!
Allur sá undirbúningur sem ég var búin að leggja í þetta verkefni hvarf út í veður og vind á einu augabragði!
Mig langaði bara að fara heim og leggjast undir sæng og aldrei koma undan henni, eins og í gamla daga!
!!!!!
En ég er nú nokkurn vegin búin að jafna mig núna, held bara áfram að bíða.
Vonandi samt ekki lengur en fram á miðvikudag!!!
Meira seinna :-)